Lengd námskeiðs
240 kennslustundir
Verð
59.000 kr. (Styrkt af Fræðslusjóði atvinnulífsins).
Almennt um námið
Um er að ræða almennt skrifstofu- og tölvunám sem hentar öllum sem annað hvort eru á leið út á vinnumarkaðinn, oft eftir nokkurra ára hlé, eða vilja styrkja stöðu sína í starfi. Í náminu er lögð rík áhersla á að styrkja einstaklinginn og gera hann hæfari til að takast á við krefjandi störf á vinnumarkaðinum.
Meðal kennslugreina eru bókhald, tölvubókhald, verslunarreikningur, Word-ritvinnsla, Excel-töflureiknir, gerð kynningarefnis, streitustjórnun og margt fleira. Námið samanstendur bæði af kennslu og verklegum æfingum. Allar kennslugreinar eru kenndar frá grunni og rétt er að gera ráð fyrir nokkurri heimavinnu.
Námið er haldið í samvinnu við Mími - símenntun. Fræðslusjóður atvinnulífsins niðurgreiðir námið fyrir nemendur sem ekki hafa lokið framhaldsskólamenntun (stúdentsprófi eða hliðstæðri menntun).
Kennt er eftir vottaðri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og er námið á 2. þrepi hæfniramma um íslenska menntun. Mögulega er hægt að meta námið til allt að 18 eininga á framhaldsskólastigi en það fer eftir mati þess skóla sem nemendur sækja um, hve margar einingar eru samþykktar.
Ekki er tryggt að námsmaður geti nýtt allar einingar til styttingar á námi í framhaldsskóla, það fer eftir tegund náms og námsferli viðkomandi námsmanns.
Markmið
Að loknu námi á nemandi að hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- helstu aðgerðum almennra tölvuforrita s.s. word, excel, power point
- lykilþáttum almennra skrifstofustarfa með áherslu á þjónustu og bókhalds
- lykilþáttum í samskiptum og þjónustu
- eigin hæfni og geti lýst henni í góðri ferilskrá
- helstu þáttum verslunarreiknings
- grunnaðgerðum í excel töflureikni
- grunnþekkingu í dagbókarfærslum og gerð efnahags - og rekstrarreiknings
- algengustu reglum um virðisaukaskatt ásamt útreikningi
- notkun tölvubókhaldsforrits, merkingu fylgiskjala
- skráningum og afstemmingum bankayfirlits
- notkun bókhaldsforrita
Kennsluaðferðir
Námið byggir á kennslu og verklegum æfingum. Nemendur fá mikið af hagnýtum verkefnum til að undirbúa þá á sem bestan hátt fyrir starf tengdu bókhaldi.
Heimalærdómur
Áhersla er lögð á verkefnavinnu nemenda er hvatt til heimavinnu. Æfing og endurtekning eru mikilvægir þáttir í öllu námi og því er mikilvægi heimanáms mikið. Áhersla er lögð á sjálfstæð vinnubrögð nemenda undir handleiðslu kennara.
Fyrir hverja?
Tilgangur námsins er að efla þekkingu og auka hæfni þeirra sem sinna eða hafa hug á að sinna almennum skrifstofustörfum. Markhópur námsins eru einstaklingar með stutta skólagöngu að baki. Einnig er þetta frábært tækifæri fyrir alla sem hafa áhuga á að efla starfshæfni sína sem og fyrir þá sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku.
Námsbrautir
Nemendum sem útskrifast úr Skrifstofuskólanum stendur til boða að halda áfram námi - Viðurkenndu bókaranámi, en mælt er með að þeir nái 7,0 í meðaleinkunn úr bókhaldshluta Skrifstofuskólans (excel, verslunarreikningur, bókhald og tölvubókhald) til að hafa þá færni sem krafist er í framhaldsnámskeiðunum.
Námskeiðið er hluti af námsleiðinni - Viðurkennt bókaranám sem skiptist í:
1. Skrifstofuskólinn
2. Bókaranám framhald
3. Að viðurkenndum bókara
Inntökuskilyrði
Námið er ætlað fólki sem er 20 ára eða eldra og hefur stutta formlega skólagöngu að baki.
Greiðslumöguleikar
Sjá nánari upplýsingar hér: http://www.ntv.is/is/um-ntv/greidsla-namskeidsgjalda
Fyrirtæki leita mikið til NTV eftir starfsfólki
Við viljum benda á að fyrirtæki, stór og smá, leita í auknum mæli eftir starfsfólki úr nemendahópi NTV. Við mælum að sjálfsögðu með okkar góðu nemendum.
Aðstoð við ferilskrá
Til að auka líkur hjá þeim nemendum sem leita eftir nýju starfi að námi loknu kemur ráðgjafi frá Capacent og heldur kynningu um hvernig nemendur eigi að bera sig að varðandi umsóknarferli, ferilskrá og ráðningarviðtöl.
KYNNING - O365 (1 DAGUR)
Megináhersla er lögð á markmið og forsendur námsins, einnig að leiða í ljós þær væntingar sem nemendur hafa til námsins. Nemendur setja sér markmið um framvindu námsins. Markmiðin eru notuð til að fylgjast með framvindu náms, námsárangri og meta skólastarfið í lok námsins. Nemendur fá kennslu í Office 365 sem er undirstaða í kennsluumhverfi skólans. Nemendur kynnast hver öðrum og umsjónarmanni námsins.
NÁMSTÆKNI (1 DAGUR)
Megináhersla í námstækninni er á þau atriði sem hafa áhrif á námsgetu, áhuga, virkni, reglufestu og einbeitingu nemenda. Einnig er farið í minnistækni og hvernig beri að haga námi til að lærdómurinn fari í langtímaminnið. Nemendur vinna verkefni sem gefa vísbendingar um námsstíl viðkomandi og hvernig hægt er að bæta námshegðun. Að lokum eru kenndar aðferðir við að glósa sem auðvelda nám (t.d. skima, strika undir, skrá minnisatriði og gera hugarkort). Unnið er áfram með námstækni í öðrum námsþáttum Skrifstofuskólans.
SJÁLFSTYRKING, SAMSKIPTI, TÍMASTJÓRNUN OG MARKMIÐASETNING, framsögn og framkoma (3 DAGAR)
Áhersla er lögð á ólík samskiptamynstur og mismunandi framkomu fólks: ákveðni, óákveðni og ágengni í samskiptum og einnig sjálfstraust og áhrif þess á framkomu fólks. Fjallað er um hvað ógnar sjálfstrausti og hvernig má bregðast við því. Kynntar eru leiðir sem leiða til betra sjálfstrausts og öruggari framkomu, til að fólk nái betri árangri í samskiptum, sé ánægðara og líði betur.
Fjallað er um ýmis atriði í samskiptatækni, eins og að hlusta, gagnrýna, taka við gagnrýni og leysa ágreining. Helstu atriði varðandi samskipti á vinnustað eru tekin fyrir og rætt um vinnustaðamenningu og einelti og helstu leiðir til að koma í veg fyrir það. Fjallað er um togstreitu, samskiptahæfni, reiðistjórnun eða annað sem ákveðið er í sameiningu af nemendum og leiðbeinanda. Áhersla er lögð á ábyrgð einstaklings á starfsánægju og markmiðasetningu.
Nemendur fá þjálfun í framsögn og framkomu.
VERSLUNARREIKNINGUR (5 DAGAR)
Kenndir eru þeir þættir stærðfræðinnar sem mest eru notaðir í almennri skrifstofuvinnu: prósentureikningur, afsláttur og álagning, samsettur prósentureikningur, útreikningur á vísitölu, útreikningingur á vörureikningi, útreikningur á veltuhraða, vaxtareikningur, samsettir vextir og virðisaukaskattsútreikningur. Mikið er af verklegum æfingum.
BÓKHALD (6 DAGAR)
Kennd er undirstaða bókhalds þar sem helstu reikningar eru teknir fyrir og verkefni færð í dagbók. Kennd er afstemming með prófjöfnuði ásamt reikningsjöfnuði og gerð efnahags- og rekstrarreiknings. Mikið er um verklegar æfingar og er bókhaldið unnið í Excel.
TÖLVUBÓKHALD (9 DAGAR)
Kennd er uppbygging bókhaldslykla, merking fylgiskjala, notkun bókunarbeiðna, hvernig færslur eru skráðar og afstemmingar, þar með talið hvernig stemmt er af við bankayfirlit. Nemendur færa bókhald fyrir lítið fyrirtæki fyrir sjö mánuða tímabil með tilheyrandi uppgjöri og útskriftum fyrir hvern mánuð. Annan hvern mánuð er gerð VSK-skýrsla ásamt tilheyrandi VSK-færslum. Kennt er á Navision viðskiptatahugbúnaðinn sem er eitt mest notaða bókhaldsforrit á markaðinum í dag.
SALA OG ÞJÓNUSTA (1 DAGUR)
Megináhersla er lögð á hvernig góð þjónusta byggist á góðu sjálfstrausti og góðum samskiptum. Þessi hluti er í beinu framhaldi af faginu Mannleg samskipti og er tengdur við það. Mikilvæg atriði í þjónustu við viðskiptavini eru tekin fyrir: hvernig á að taka á erfiðum viðskiptavinum, taka á móti kvörtunum og leysa úr erindum viðskiptavina í gegnum síma. Fjallað er um söluhringinn og hvernig allir starfsmenn fyrirtækisins tengjast órjúfanlegum böndum við sölu á vörum og þjónustu.
TÖLVU - OG UPPLÝSINGALEIKNI (14 DAGAR)
Windows, Internet og Outlook
Farið er í uppbyggingu tölvunnar og grunnatriði Windows-stýrikerfisins. Sérstök áhersla er lögð á þá þætti sem tengjast almennri notkun svo sem afritun og vistun gagna, stjórnun útprentunar og fleira. Fjallað er um hvernig má nýta sér Internetið. Kennt er hvernig nota má Outlook-póstforritið til samskipta, til að bóka fundi, halda utan um verkefni, til tímastjórnunar og til að skrá og viðhalda upplýsingum um tengiliði og samskipti við þá.
Word-ritvinnsla
Farið er yfir allar helstu aðgerðir sem ritvinnsluforritið býður upp á við ritun, leiðréttingar og formun texta, fjallað um leturgerðir, flutning, afritun, vistun og útprentun. Mikið er um verklegar æfingar.
Excel-töflureiknir
Farið er yfir grunnuppbyggingu töflureiknisins. Kennd er uppbygging á reiknilíkönum og helstu aðgerðir við útreikninga og útlitshönnun á töflum. Einnig er kennt hvernig birta má tölur á myndrænu formi, t.d. í súlu- eða kökuritum, og margt fleira.
PowerPoint - gerð kynningarefnis
Kennt er hvernig má útbúa skemmtilegar kynningar (glærur) með PowerPoint-forritinu sem er hluti af Microsoft Office-pakkanum.
FÆRNIMAPPA OG FERILSKRÁ (6 DAGAR)
Nemanda er kynnt færnimappa þar sem hann getur skráð inn persónulegar upplýsingar, námstengda færni, réttindi og skírteini, auk upplýsinga um tungumála- og tölvukunnáttu. Í færnimöppuna eru einnig settar upplýsingar um starfstengda færni, samskiptafærni og aðra færni sem einstaklingurinn hefur tileinkað sér við að sinna áhugamálum og gegna trúnaðarstörfum. Vinna við færnimöppuna veitir aukinn skilning og yfirsýn yfir eigin kunnáttu og færni og getur á þann hátt aukið sjálfstraust, starfshæfni og starfsánægja. Mappan dregur fram sérstaka eiginleika starfsmanns og byggir á styrkleikum hans í stað veikleika.
Farið er yfir gerð ferilskrár. Nemandi útbýr ferilskrá og rætt er um hegðun í atvinnuviðtali.
Til að auka líkur hjá þeim nemendum sem leita eftir nýju starfi að námi loknu kemur ráðgjafi frá Capacent og heldur kynningu um hvernig nemendur eigi að bera sig að varðandi umsóknarferli, ferilskrá og ráðningarviðtöl.
LOKAVERKEFNI (6 DAGAR)
Lokaverkefni Skrifstofuskólans veitir nemendum tækifæri til að vinna með flesta þá þætti sem þeir hafa lært í náminu. Um er að ræða hópaverkefni þar sem nemendur læra að vinna saman í hóp og nýta styrkleika hvers og eins.