Hvað segja nemendur um námið?
Bæði góðir kennarar og skemmtilegir. Sumir eru með eigin rekstur sem gerir námið hagnýtara og "up to date". - Vilhjálmur Þór Gunnarsson, fyrrverandi nemandi í Sölu-, markaðs- og rekstrarnámi. |
Fjarnám í boði jafnframt sem hefðbundið staðarnám - sjá neðar.
Almennt um námið
Sölu-, markaðs- og rekstrarnám NTV og Mímis-símenntunar hentar sérstaklega þeim sem hafa áhuga á að vinna við viðskipta-, sölu- og markaðsmál og þeim sem vilja stofna til eigin reksturs. Eftir námið hefur nemandinn öðlast nægjanlega innsýn og færni í viðskipta-, markaðs- og sölumálum til að undirbúa eigin rekstur eða til að starfa sem sölu- og markaðsfulltrúi stærri fyrirtækja.
Námið samanstendur af kennslu og verklegum æfingum og eru próf í helstu námsgreinum. Rétt er að gera ráð fyrir nokkurri heimavinnu. Í lok náms fá nemendur viðurkenningarskjal og prófskírteini.
Öll fög í náminu eru kennd frá grunni. Námið er haldið í samvinnu við Mími - símenntun.
Kennt er eftir vottaðri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og er námið á 2. þrepi hæfniramma um íslenska menntun. Mögulega er hægt að meta námið til allt að 22 eininga á framhaldsskólastigi en það fer eftir mati þess skóla sem nemendur sækja um, hve margar einingar eru samþykktar. Ekki er tryggt að námsmaður geti nýtt allar einingar til styttingar á námi í framhaldsskóla, það fer eftir tegund náms og námsferli viðkomandi námsmanns.
Námið er ætlað fólki sem er 20 ára eða eldra og hefur stutta formlega skólagöngu að baki. Fræðslusjóður atvinnulífsins niðurgreiðir námið fyrir þá sem ekki hafa lokið framhaldsskólamenntun(stúdentsprófi eða hliðstæðri menntun).
Námið er ætlað fólki sem er 20 ára eða eldra og hefur stutta formlega skólagöngu að baki. Fræðslusjóður atvinnulífsins niðurgreiðir námið fyrir þá sem ekki hafa lokið framhaldsskólamenntun(stúdentsprófi eða hliðstæðri menntun).
NTV skólinn býður upp á vandað fjarnám með góðum stuðningi. Nemendur fá allt ítarlegt námsefni, fyrirlestra, verkefni og úrlausnir í gegnum nemendaumhverfi skólans sem er aðgengilegt hvar og hvenær sem er á netinu. Fjarnemendur hafa aðgengi að leiðbeinanda í gegnum nemendasvæðið með allar fyrirspurnir. Samskipti kennara/umsjónarmanns við fjarnemendur fara fram rafrænt í gegnum Microsoft Teams umhverfið. Í upphafi fá fjarnemendur námsdagskrá sem tilgreinir og tímasetur alla námsyfirferð, verkefnaskil, prófadaga og annað sem við á. Öll próf eru framkvæmd í gegnum nemendaumhverfi NTV á netinu.
Öllum nemendum í fjarnámi býðst að koma í valda tíma í staðnáminu ef þeir óska eftir því svo fremi sem það eru laus sæti.
ATH: Mikilvæg ábending fyrir fjarnemendur sem vinna í Mac umhverfi. Námsefni skólans miðast við PC umhverfi í allri Excel kennslu. Það er munur á einstökum aðgerðum á milli Mac og PC, þó hann fari minnkandi. Sá munur liggur aðallega í flýtiaðgerðum á lyklaborðinu. Nemendur í Mac umhverfi verða sjálfir að setja sig inn í þær aðgerðir. Það eru í boði fjöldinn allur af hjálparsíðum á netinu sem útskýra þetta sérstaklega.
Sjá nánari upplýsingar hér: http://www.ntv.is/is/um-ntv/greidsla-namskeidsgjalda
NTV skólinn býður upp á vandað fjarnám með góðum stuðningi. Nemendur fá allt ítarlegt námsefni, fyrirlestra, verkefni og úrlausnir í gegnum nemendaumhverfi skólans sem er aðgengilegt hvar og hvenær sem er á netinu. Fjarnemendur hafa aðgengi að leiðbeinanda í gegnum nemendasvæðið með allar fyrirspurnir. Samskipti kennara/umsjónarmanns við fjarnemendur fara fram rafrænt í gegnum Microsoft Teams umhverfið. Í upphafi fá fjarnemendur námsdagskrá sem tilgreinir og tímasetur alla námsyfirferð, verkefnaskil, prófadaga og annað sem við á. Öll próf eru framkvæmd í gegnum nemendaumhverfi NTV á netinu.
Öllum nemendum í fjarnámi býðst að koma í valda tíma í staðnáminu ef þeir óska eftir því svo fremi sem það eru laus sæti.
ATH: Mikilvæg ábending fyrir fjarnemendur sem vinna í Mac umhverfi. Námsefni skólans miðast við PC umhverfi í allri Excel kennslu. Það er munur á einstökum aðgerðum á milli Mac og PC, þó hann fari minnkandi. Sá munur liggur aðallega í flýtiaðgerðum á lyklaborðinu. Nemendur í Mac umhverfi verða sjálfir að setja sig inn í þær aðgerðir. Það eru í boði fjöldinn allur af hjálparsíðum á netinu sem útskýra þetta sérstaklega.
NÁMSTÆKNI
Megináhersla í námstækninni er á þau atriði sem hafa áhrif á námsgetu, áhuga, virkni, reglufestu og einbeitingu nemenda. Einnig er farið í minnistækni og hvernig beri að haga námi til að lærdómurinn fari í langtímaminnið. Nemendur vinna verkefni sem gefa vísbendingar um námsstíl viðkomandi og hvernig hægt er að bæta námshegðun. Að lokum eru kenndar aðferðir við að glósa sem auðvelda nám (t.d. skima, strika undir, skrá minnisatriði og gera hugarkort). Unnið er með námstækni áfram í öðrum námsþáttum Sölu-, markaðs- og rekstrarnámsins.
Nemendur fá kynningu á færnimöppu sem er grunnur að góðri ferilskrá. Vinna við færnimöppuna veitir aukinn skilning og yfirsýn yfir eigin kunnáttu og færni og getur á þann hátt aukið sjálfstraust, starfshæfni og starfsánægja. Mappan dregur fram sérstaka eiginleika starfsmanns og byggir á styrkleikum hans í stað veikleika. Farið er yfir gerð ferilskrár. Nemandi útbýr ferilskrá og rætt er um hegðun í atvinnuviðtali.
SJÁLFSTYRKING, SAMSKIPTI, TÍMASTJÓRNUN OG MARKMIÐASETNING
Áhersla er lögð á ólík samskiptamynstur og mismunandi framkomu fólks: ákveðni, óákveðni og ágengni í samskiptum og einnig sjálfstraust og áhrif þess á framkomu fólks. Fjallað er um hvað ógnar sjálfstrausti og hvernig má bregðast við því. Kynntar eru leiðir sem leiða til betra sjálfstrausts og öruggari framkomu, til að fólk nái betri árangri í samskiptum, sé ánægðara og líði betur.
Fjallað er um ýmis atriði í samskiptatækni, eins og að hlusta, gagnrýna, taka við gagnrýni og leysa ágreining. Helstu atriði varðandi samskipti á vinnustað eru tekin fyrir og rætt um vinnustaðamenningu, einelti og helstu leiðir til að koma í veg fyrir það. Fjallað er um togstreitu, samskiptahæfni, reiðistjórnun eða annað sem ákveðið er í sameiningu af nemendum og leiðbeinanda. Áhersla er lögð á ábyrgð einstaklings á starfsánægju og markmiðasetningu.
FRAMKOMA OG FRAMSÖGN
Kennd eru lykilatriði framkomu og tækni við að koma fram og halda kynningar.
TÖLVU - OG UPPLÝSINGALEIKNI
Kynning – O365
Megináhersla er lögð á markmið og forsendur námsins, einnig að leiða í ljós þær væntingar sem nemendur hafa til námsins. Nemendur setja sér markmið um framvindu námsins. Markmiðin eru notuð til að fylgjast með framvindu náms, námsárangri og meta skólastarfið í lok námsins.
Nemendur fá kennslu í Office 365 sem er undirstaða í kennsluumhverfi skólans. Nemendur kynnast hver öðrum og umsjónarmanni námsins.
Word-ritvinnsla
Farið er yfir allar helstu aðgerðir sem ritvinnsluforritið býður upp á við ritun, leiðréttingar og formun texta, leturgerðir, flutning, afritun, vistun og útprentun. Mikið er um verklegar æfingar.
Excel-töflureiknir
Farið er yfir grunnuppbyggingu töflureiknisins. Kennd er uppbygging á reiknilíkönum og helstu aðgerðir við útreikninga og útlitshönnun á töflum. Einnig er kennt hvernig birta má tölur á myndrænu formi, t.d. í súlu- eða kökuritum, og margt fleira.
PowerPoint
Kennt er hvernig má útbúa skemmtilegar kynningar (glærur) með PowerPoint-forritinu sem er hluti af Microsoft Office-pakkanum.
Samþætting Office
Kennt er hvernig má flytja upplýsingar á milli mismunandi forrita í Microsoft Office-pakkanum.
VERSLUNARREIKNINGUR
Kenndir eru þeir þættir stærðfræðinnar sem mest eru notaðir í almennri skrifstofuvinnu: prósentureikningur, afsláttur og álagning, samsettur prósentureikningur, útreikningur vísitölu, útreikningur á vörureikningi, útreikningur á veltuhraða, vaxtareikningur, samsettir vextir og virðisaukaskattsútreikningur. Mikið er af verklegum æfingum.
SÖLUTÆKNI, VIÐSKIPTATENGSL OG ÞJÓNUSTA
Kennd eru grundvallaratriði í sölutækni og söluhringurinn tekinn fyrir. Farið er í þá þætti sem einkenna góðan sölumann, kauphegðun viðskiptavina og manngerðir kaupandans. Nemendur læra að þekkja söluferilinn og mismunandi aðferðir við að loka sölunni. Einnig er farið í framsögn og hvernig hægt er að gera kynningar áhrifaríkar og skilvirkar. Verkefni eru unnin í hópstarfi.
Hnitmiðuð og góð samskipti eru undirstaða allra viðskipta. Tökum eftir þörfum viðskiptavinar fljótt og vel. Leitumst við að svara: Hvernig náum við fljótt góðu sambandi við viðmælanda? Hvernig berum við okkur að í erfiðum samskiptum?
ALMENN MARKAÐSFRÆÐI
Farið er í grunnþætti markaðsfræðinnar og söluferlisins, undirbúning söluaðgerða og hvernig hægt er að nýta tímann sem best við að ná árangri. Nemendur læra aðferðir við söluleit og hvernig hægt er að nálgast viðskiptavininn. Farið er yfir þá þætti sem tengjast stjórnun og yfirsýn söluverkefna og hvernig hægt er að setja sér sölumarkmið. Þessum þætti námsins lýkur með prófverkefni.
MARKAÐSRANNSÓKNIR
Farið er í tilgang og markmið markaðsrannsókna, hvar þær eiga við og hvar ekki. Einnig er farið í gegnum uppbyggingu þeirra. Ein netrannsókn er unnin frá upphafi til enda, ásamt öðrum verkefnum.
Fjallað er um þá þætti sem snerta markaðsrannsóknir, forvinnu og vinnslu á ítarlegri rannsókn, tölfræði við úrvinnslu og skekkjumörk. Unnið er með flóknari rannsóknartæki (hugbúnað). Jafnframt er farið í nauðsyn skýrslugerðar.
„WIN/WIN“ SAMNINGATÆKNI
Listin að kunna að semja er hæfileiki sem auðveldar frumkvöðlum og fyrirtækjum að byggja traustan grunn undir reksturinn. Í þessum hluta er farið í þau grunnatriði sem mestu máli skipta við samningagerð með langtíma hagsmuni beggja að leiðarljósi, þar sem báðir aðilar standa uppi sem sigurvegarar.
EXCEL VIÐ ÁÆTLANAGERÐ
Excel er öflugasta verkfærið sem völ er á við áætlanagerð. Kennd er uppsetning áætlana frá grunni með þeim nauðsynlegu formúlum og föllum sem þarf til að gera fjárhags- og kostnaðaráætlanir. Einnig fá nemendur til afnota tilbúin rekstrar- og hugmyndalíkön.
LYKILTÖLUR OG LAUSAFÉ
Í þessum hluta námskeiðsins er kenndur arðsemisútreikningur og aðferðir til að hámarka hagnað við mismunandi skilyrði. Fjallað er um framleiðslu, framboð, eftirspurn og arðsemi ásamt jafnvægisgreiningu og aðra útreikninga með tilliti til ýmissa kostnaðarþátta.
Skoðaðar verða forsendur ávöxtunarkrafna og kynntar aðferðir við að meta núvirði, framvirði og afskriftir mismunandi fjárfestinga.
Farið er ítarlega yfir áætlunargerð fyrirtækja, svo sem greiðslu- og rekstraráætlanir til að geta framreiknað áætlaðan efnahag í árslok. Mikil áhersla er lögð á verklegar æfingar.
FRUMKVÖÐLAFRÆÐI OG FYRIRTÆKJASMIÐJA
Fjallað er um mismunandi rekstrarform fyrirtækja, svo sem einstaklingsrekstur, sameignarfélög og hlutafélög. Rætt er hvað greinir þessi félög að og hvaða lög og reglur gilda um þau. Nemendur fá þjálfun í að stofna sitt eigið einkahlutafélag með öllum tilheyrandi fylgiskjölum og greinargerðum.
Nemendum er kennt að koma auga á viðskiptatækifæri og leggja kalt mat á viðskiptahugmyndir: af hverju viðskiptahugmynd er líkleg til árangurs og fjárhagslega hagkvæm. Nemendur læra að greina markaðsstærð og samkeppni á viðkomandi markaði. Einnig meta nemendur eigin getu til að útfæra þær hugmyndir sem unnið er með og hvar hægt er að sækja þá þekkingu sem uppá vantar.
GERÐ KYNNINGAREFNIS
Nemendur læra lykilatriði við gerð kynningarefnis. Nemendur læra að þekkja einkenni góðra auglýsinga með tilliti til þess miðils sem auglýst er í og helstu einkenni eftirfarandi boðmiðla: prentmiðla, sjónvarps, útvarps, umhverfismiðla, vef- og samfélagsmiðla.
Eftir þennan námsþátt getur nemandi komið að hugmyndavinnu að auglýsingu, lagt mat á hvort auglýsingin gefi í skyn eitthvað eftirsóknarvert um vöruna, hvort auglýsingin gefi í skyn eitthvað einstakt eða sérstakt sem samkeppnisaðilar hafa ekki og hvort skilaboðin eigi samleið með markhópnum sem höfða á til. Auk þess er farið í umhverfi umbrotshugbúnaðarins InDesign þar sem nemendur fá að spreyta sig við uppsetningu nafnspjalds, bæklings og markpósts.
MARKAÐSSETNING Á NETINU
Í þessum hluta er á hagnýtan hátt tekið á því hvernig fyrirtæki geta náð góðum árangri í markaðsstarfi sínu á netinu. Skoðuð er breyting á hegðun viðskiptavina, ásamt því að leita uppi helstu sóknarfærin á netinu. Svarað er helstu spurningum um bestu nýtingu á vefborðum, hvernig hægt er að ná góðum árangri með leitarvélum og nota samfélagsmiðlana til að ná auknum árangri. Nýting á vefgreiningartólum er útskýrð, notkun á tölvupóstum er skoðuð og unnin eru verkefni í tengslum við yfirferð námskeiðsins. Stuðst er við bókina Markaðssetning á netinu eftir þá Guðmund Arnar Guðmundsson og Kristján Má Hauksson og er hún innifalin í verði námskeiðsins.
STAFRÆN MARKAÐSFRÆÐI / SAMSKIPTAMIÐLAR
Í dag verður markaðsfólk að þekkja þá hlið markaðsfræðinnar sem snýr að vefnum. Þess vegna höfum við bætt við námið greiningu með Google Analytics, auglýsingavinnslu í Google Adwords og hvernig nota á Fésbókina sem markaðstæki. Byggt er á þeirri þekkingu sem nemendur hafa náð að tileinka sér á þessum tímapunkti í náminu til að ná árangri með þessum stafrænu leiðum.
VERKEFNASTJÓRNUN
Farið er í grunnatriði verkefnastjórnunar, persónulega færni nemenda, skilvirkt verklag og skipulag og forgangsröðun verkefna. Við verkefnastjórnun eru verkefni skoðuð í víðu samhengi, allt frá skipulagningu og áætlunargerð til eftirlits með öllum þáttum á framkvæmdatíma. Á námskeiðinu eru kenndar aðferðir við að undirbúa verkefni, gera áætlanir og fylgja þeim eftir. Þátttakendur fá góða sýn á eðli verkefna, kynningu á og æfingu í að nota algeng verkfæri við verkefnastjórnun.
GERÐ VIÐSKIPTAÁÆTLUNAR / LOKAVERKEFNI
Viðskiptaáætlunin er afrakstur allra annarra námsgreina í náminu. Þar sýna nemendur fram á að þeir geri sér grein fyrir markaðsmálum, stofnkostnaði, rekstrarfjárþörf auk fjölda annarra þátta og geti með þekkingu sinni ásamt þeim verkfærum sem þeim eru færð á námstímanum áætlað arðsemi þess að ráðast í framkvæmd hugmynda sinna.
Viðskiptaáætlun er greinargerð þar sem öllum upplýsingum er komið skipulega á einn stað. Þannig er auðveldlega hægt að gera sér grein fyrir hvaða leiðir eru vænlegar og hvað þarf til að gera viðskiptahugmynd að veruleika.
Náminu lýkur með kynningu viðskiptaáætlana nemenda.